Ferðaskrifstofa eldri borgara hefur tekið upp á því að bjóða upp á svokallaðar heilsuferðir til Tékklands. Er þetta í fyrsta sinn sem ferðaskrifstofan býður upp á slíkar ferðir en farið er til bæjarins Mariánské Lázně í austurhluta Tékklandi.

Rúmlega 14.000 íbúar búa í þessum heilsulindarbæ en Mariánské Lázně hefur sérhæft sig í spa-meðferðum frá því um miðja nítjándu öld. Frægir einstaklingar á borð við Mark Twain, Winston Churchill, Frédéric Chopin og Alfred Nobel hafa heimsótt bæinn í leit að afslöppun.

Sigurður Kolbeinsson, eigandi Ferðaskrifstofu eldri borgara, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ferðaskrifstofan hafi lengi vel verið í góðu sambandi við Heilsustofnunina í Hveragerði og að hún hafi fyrst komið skrifstofunni í samband við fyrirtæki sem rekur fjórar heilsulindir í Tékklandi.

„Það verður þannig að forstjóri fyrirtækisins er í sumarfríi hér á síðasta ári og ég tek þá fund með honum í ágúst í fyrra. Ferðaskrifstofa eldri borgara er eins og nafnið gefur til kynna með ferðir fyrir þá eldri og viljum við geta boðið upp á mat á kvöldin og þarf enginn heldur að örvænta hvað á svo að gera á kvöldin.“

Tveir fulltrúar á vegum ferðaskrifstofunnar voru sendir til Tékklands og segir Sigurður að þeim hafi fundist bærinn gríðarlega fallegur. „Hann er bara eins og Hveragerði, þar er skóglendi, fjalllendi og afslöppun.“

Sigurður bætir við að ferðirnar séu ekki hugsaðar sem „detox-ferðir“, frekar séu þær hugsaðar sem afslöppun þar sem fólk getur notið þess að vera í rólegheitum en geti þó þegið meðferðir sem eru í boði í pakkanum.

„Við erum bara að gera tilraun til þess að gera fólki kleift að komast í svona ferðir á viðráðanlegu verði án þess að þurfa að fá einhver læknisvottorð,“ segir Sigurður.