Vínframleiðendur í Frakklandi eru farnir að vera áhyggjufullir þar sem lítið sem ekkert frost kom í vetur og eru þrúgurnar farnar að vaxa mánuði á undan áætlun.

Víntímaritið Decanter ræddi við Tom Warner frá Domaine de Joy í suðvesturhluta Frakklandi sem segir að hitinn hafi ekki farið yfir frostmark í marga mánuði. Hitastigið í vetur var tveimur gráðum hærra en venjulega og 3,6° hærra í febrúar, sem var sérstaklega mildur.

Það sem gerir vínframleiðendur áhyggjufulla er að ofurmildiur vetur getur haft alvarleg áhrif á ræktunarferlið. Ef þrúgurnar byrja að vaxa of snemma gætu þær verið berskjaldaðar fyrir frosti sem gæti komið í apríl.

„Vorið er nú þegar komið í vínekruna okkar en það er ekki fyrr en um miðjan maí sem við erum alveg laus við frostið,“ segir Sophie Bertin, frá Domaine Eric Louis í Sancerre.

Árið 2021 kom upp svipuð atburðarás en óvenjuhlýr vetur varð til þess að þrúgurnar byrjuðu að vaxa á undan áætlun en skyndilega í apríl kom þriggja daga kuldakast. Á þremur dögum töpuðu sumir ræktendur næstum ársframleiðslu og það ár framleiddu Frakkar minnsta magn af víni í áratug.