Samkvæmt fréttamiðlinum Wall Street Journal hafa viðskiptavinir skemmtiferðaskipa í Bandaríkjunum verið að lenda í vandræðum fyrir að vilja reykja gras eða borða sína sérstöku gúmmíbangsa um borð í skipunum.

Skipin eru nú að herða reglur sínar og banna allar tegundir maríjúana um borð. Sum skemmtiferðaskip hafa meðal annars byrjað að notast við hunda til að þefa á farþegum.

Fyrirtækin segja að þau séu einfaldlega að fara eftir lögum en þó svo að maríjúana sé orðið löglegt í mörgum einstökum ríkjum Bandaríkjanna þá er efnið enn ólöglegt hvað varðar alríkislög. Þau segjast líka vilja tryggja þægilegt umhverfi fyrir þá sem nota ekki maríjúana.

Farþegar segja þó reglurnar óljósar og eru margir ringlaðir. Sumir hafa lent í því að hafa verið reknir frá borði í erlendum höfnum á meðan aðrir segjast hafa notað maríjúana án þess að hafa lent í neinum vandræðum.

Josh DeLucio og eiginkona hans fara í þrjár skemmtisiglingar á hverju ári. Hann fer aldrei í frí án þess að hafa með sér það sem hann kallar ferðaapótekið sitt en hann er með sjúkdóm sem veldur langvarandi verkjum í fótum.

Meðal þeirra lyfja sem hann notar er olía sem inniheldur CBD og THC. Hann segist ekki hafa gaman af lyktinni af maríjúana né vill vera í kringum fólk sem notar það en segir að olían hjálpi við að draga úr sársaukanum.

Kona í Texas var sett í ævilangt bann af fyrirtækinu Carnival Cruise Line eftir að gúmmíbangsar fundust í farangri hennar við öryggisleit fyrir siglingu í sumar. Henni var meinað að fara um borð og fékk fjölskylda hennar endurgreitt að hluta til.

Þrátt fyrir yfirlýsingu skemmtiferðaskipafyrirtækjanna um að verið sé að fara eftir lögum þá geta fyrirtækin hagnast fjárhagslega á því að banna kannabis um borð. Áfengi er mikil tekjulind um borð í skemmtiferðaskipum og fyrirtækin sem reka þau takmarka einnig hversu mikið áfengi hver og einn farþegi fær að taka með um borð.