Klettur bauð nýverið viðskiptavinum á kynningu sem bar yfirskriftina Hreinni framtíð og var haldin í nýrri þjónustumiðstöð fyrirtækisins að Einhellu 1 í Hafnarfirði.

Fyrirtækið býður upp á stafræna þjónustu fyrir bæði Scania og CAT. My Scania-appið er í raun flotastýringarkerfi sem hjálpar við að minnka kolefnisspor, halda utan um viðhaldsþörf og hámarka nýtingu bílanna.

„Hugmyndin að kynningunni kviknaði vegna áhuga bátageirans á nýrri rafknúinni vél frá Scania þannig að við ákváðum að sýna í heild sinni hvað við höfum að bjóða í tengslum við orkuskiptin en sýna um leið þann mikla árangur sem hefur náðst með þróun dísilvéla sem stöðugt hafa verið að minnka kolefnisspor sitt og skila hreinni útblæstri,“ segir Kristján Már Atlason, forstjóri Kletts.

Åsa Bennerstam, viðskiptastjóri hjá Scania, og Torben Dabrowski, sérfræðingur í orkuskiptalausnum bátavéla, sýndu hybrid-lausn fyrir báta sem samanstendur af öflugum rafmótor og dísilvél sem hægt er að keyra saman eða hvort í sínu lagi. Búnaðurinn skilar framúrskarandi afli, minnkar útblástur og losun á CO2, sparar eldsneyti, dregur úr hávaða og lækkar rekstrarkostnað. Þetta er lausn sem hentar til dæmis í hvalaskoðun, minni ferjur, þjónustu- og dagróðrabáta.

Scania er með tvær gerðir rafknúinna vörubíla; annars vegar Urban til notkunar að mestu innanbæjar og hins vegar Regional sem býr yfir 350–400 km drægni, tekur meiri þunga og er með öflugustu fáanlegu hleðslueiginleika. Klettur er þegar kominn með Urban og von er á Regional sem vann Evrópsk verðlaun í desember sem umhverfisvænasti rafknúni vörubíllinn.

Super er ný vörubílalína frá Scania með nýrri 13 lítra dísilvél, nýjum gírkassa og driflínu. Mikil framþróun hefur orðið á dísilvélinni sem eyðir nú 8–10% minna eldsneyti en síðasta kynslóð. Super vann Green Truck of the Year og var eyðslugrennsti flutningabíll Evrópu á síðasta ári.

„Við sjáum ekki að hægt sé á allra næstu árum að ýta dísiltrukkum alveg út af markaðnum en þá er mikilvægt að endurnýja elstu bílana því það skilar rekstrarhagræðingu og jákvæðum umhverfisáhrifum, bæði hvað varðar NOx og CO2, en níturoxið er nú orðið aðeins brot af því sem það var í eldri kynslóðum véla,“ segir Kristján Már jafnframt.