Í nýútgefnum ársreikningi knattspyrnudeildar KR fyrir rekstrarárið 2021 kemur fram að deildin hafi selt leikmenn fyrir rúmar 50 milljónir króna. Þá hafi deildin keypt leikmenn fyrir milljón krónur á sama tímabili.

KR seldi varnarmanninn Finn Tómas Pálmason í byrjun árs 2021 til IFK Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni, en samkvæmt Fótbolta.net fengu KR 24 milljónir króna greiddar fyrir leikmanninn.

Félagið seldi einnig hinn unga Jóhannes Kristin Bjarnason til sama félags, en leikmaðurinn er sonur Bjarna Guðjónssonar, fyrrverandi landsliðsmanns og atvinnumanns í fótbolta.

Sala KR á leikmönnum skilaði tæplega 10 milljón króna hagnaði í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Til samanburðar nam tap deildarinnar rúmum 19 milljónum króna á rekstrarárinu 2020.