Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, segir mjög mikilvægt að börn læri kvikmyndalæsi þar mikið af þeim upplýsingum sem börn taka inn úr umhverfi sínu í dag komi í gegnum sjónræna miðlun frekar en frá bókum.

Bíó Paradís mun standa fyrir alþjóðlegri barnakvikmyndahátíð, sem haldin verður 28. október – 5. nóvember næstkomandi, þar sem boðið verður upp á skólasýningar fyrir börn og ungmenni á höfuðborgarsvæðinu.

Hátíðin hefur verið haldin síðastliðin tíu ár og í tilefni af því hefur Bíó Paradís ákveðið að gera kvikmyndirnar í fyrsta sinn aðgengilegar til allra grunnskóla landsins í samstarfi við List fyrir Alla og Kvikmyndamiðstöð Íslands.

„Við höfum alltaf verið með sýningar fyrir skóla og nemendur að kostnaðarlausu, svo að allir fái tækifæri til að taka þátt og heimsækja sína fyrstu kvikmyndahátíð. Í ár munum við hins vegar bjóða öllum grunnskólum á landinu að vera þátttakendur í skólasýningum hjá okkur. Þeir fá sendan aðgang að þeim tíu myndum sem Bíó Paradís gefur út auk kennsluefnis eftir Oddnýju Sen kvikmyndafræðing,“ segir Hrönn.

Á hverju ári tekur Bíó Paradís á móti 8.000 grunnskólanemendum í kvikmyndalæsiskennslu í bíóinu og býður svo öll börn velkomin á Barnakvikmyndahátíðina. Hrönn segir þetta mikilvægt þar sem það búi ekki öll börn við það að eiga foreldra sem fara með þau á kvikmyndahátíðir.

Í kvikmyndalæsiskennslu er börnum kennt sjónræna tungumál kvikmyndagerðarinnar og hvernig kvikmyndagerð býr til ákveðna stemningu og ýmis höfundareinkenni í kvikmyndagerð. Hrönn segir kvikmyndalæsiskennslu í raun vera kennslu í fjölmiðlalæsi.

„Mjög mikið af þeim upplýsingum sem börn eru að taka inn úr umhverfi sínu í dag koma í gegnum sjónræna miðlun frekar en frá bókum. Þess vegna er kvikmyndalæsi orðið jafn mikilvægt og að kunna að lesa, því ef þú þekkir ekki stílbrögð kvikmyndagerðar þá áttu erfitt með að greina það sem er verið að setja fyrir framan þig, til dæmis áróður frá fréttum eða staðalímyndir.“

Hrönn segir að með komu samfélagsmiðla á borð við TikTok og Snapchat séu sjónrænar upplýsingar mjög mikilvægar. Myndböndin eru oft mjög stutt en fylgja engu að síður sömu leikreglum og í allri kvikmyndagerð.

„Það er mjög mikilvægt að börn átti sig á því af hverju hlutir eru settir fram á ákveðinn hátt í kvikmyndum og hvaða tilfinningar er verið að búa til.“