Nýr Mercedes-Benz G-Class var frumsýndur í dag. Þó varla sjáist breyting á bílnum að utan þá hafa verið gerðar töluverðar breytingar á yfirbyggingu hans til að minnka vindmótstöðu.

Ekki var gefið upp hversu mikið hún minnkar en forsvarsmenn Mercedes hafa sagt að það sé veruleg minnkun.

Lúxusinn í jeppanum eykst enn en veg- og vindhljóð minnkar, hljómgæði aukast og nú er í fyrsta sinn hægt opna bílinn án þess að nota lykil.

Flestir bjuggust við því að nýi bílinn yrði frumsýndur í rafútgáfu en raunin var önnur því útgáfurnar þrjár eru knúnar jarðefnaeldsneyti, G450 dísil, G500 bensín og G63 AMG.

Búist er við því að rafútgáfan verði frumsýnd um miðjan apríl. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins verður sá bíll 540 hestöfl og drægnin tæpir 450-500 km.

Hér má sjá kynningarmyndbönd og myndir af nýjum G-Class.