„Á hverju ári detta 800 sakamál inn á borð rannsóknarlögreglunnar. Sum þeirra eru aldrei leyst. Þessi kvikmynd fjallar um eitt þeirra.“

Svona hefst kvikmyndin The Night of the 12th sem er nú sýnd í Bíó Paradís. Myndin er skálduð saga en byggist þó á sönnum atburðum. Hún fjallar um unga konu í Frakklandi sem er myrt á hrottalegan hátt meðan hún gengur heim til sín úr gleðskap.

Eftir morð hennar er fylgst með rannsóknarlögreglumanni sem reynir eins og hann getur að leysa málið og finna morðingjann. Erfiðlega gengur hins vegar að leysa ráðgátuna og verður lögreglumaðurinn fljótlega heltekinn af málinu.

Kvikmyndin vann til flestra César-verðlauna og var meðal annars valin besta mynd ársins í Frakklandi en myndin var frumsýnd á Kvikmyndahátíðinni Cannes 2022. Dominik Moll skrifaði handrit myndarinnar og í aðalhlutverki fara Bastien Bouillon, Bouli Lanners og Mouna Soualem.

The Night of the 12th er gjörólík mörgum lögreglumyndum sem Hollywood er vant að sýna heiminum þar sem góðu lögreglumennirnir sigra og koma vonda karlinum fyrir kattarnef eða á bak við lás og slá. Hún viðurkennir strax í upphafi að málið sé óleyst en fylgist með þrautseigju lögreglunnar að koma til botns í málinu og eykst gremjan eftir því sem fleiri og fleiri grunaðir menn eru yfirheyrðir.

Hún sýnir jafnframt þá erfiðleikana sem lögreglumenn geta átt í einkalífi sínu þegar ákveðin mál hafa mikil áhrif á þá. Í myndinni er sagt að hver og einn rannsóknarlögreglumaður lendi alltaf í einu sakamáli á starfsævi sinni sem heltekur hann.

Kvikmyndin er ekki aðeins ein besta mynd sem hefur komið frá Frakklandi síðan Amélie, hún er með þeim betri lögreglumyndum sem hafa verið gerðar síðustu áratugi. Hún víkur algjörlega frá öllum hetjuklisjum sem kvikmyndaframleiðendur hafa matreitt bíógesti sína með í mörg ár og sýnir raunveruleikann eins og hann er, ekki eins og við myndum vilja að hann væri.

The Night of the 12th heldur áhorfanda við söguþráðinn alla myndina og notast við skemmtilegar franskar viðlíkingar, eins og reiðhjól, til að lýsa lífi lögreglumannsins. Myndin er líka sönnun þess efnis að einhverjar af bestu kvikmyndum heims eru ekki endilega þær sem fara beint frá Hollywood í hefðbundin kvikmyndahús, heldur þær sem leynast á öðrum tungumálum og eru metnar fyrir snilldina sem þær eru frekar en tekjurnar sem þær búa til.