Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er mikill laxveiðimaður og var meðal annars leiðsögumaður við Haffjarðará í áratug.

Eins og gefur að skilja hefur Sigurður veitt fjölda laxa en einn stendur þó upp úr. Gefum honum orðið: „Síðdegis í júní fyrir nokkrum árum síðan vorum við Ingi Fróði Helgason, staðarhaldari í Haffjarðará, saman í Laxá á Ásum og þegar þarna var komið við sögu vorum við að egna lax í Langhyl.

Ingi óð yfir ána og veiddi hana á hefðbundinn hátt en ég kaus að vera bílmegin. Ingi hóf leik en laxinn sýndi flugunni ekki áhuga þannig að ég tók við. Skugga var kastað í hylinn og látið reka löturhægt. Í öðru kast tók lax sem var landað eftir nokkra viðureign. Hann hefur verið um 80 sentimetrar að lengd."

„Ingi hvatti mig til að kasta aftur sem ég og gerði. Í fyrsta kasti var tekið harkalega í fluguna, línan rauk út en stuttu síðar lagðist laxinn og hreyfði sig ekki um stund. Ég bendi Inga á þetta, segi að þetta sé vísbending um að laxinn sé stór og hvet hann til þess að koma yfir á bakkann þar sem ég stend. Honum þótti ekki ástæða til þess.

„Eftir störukeppni milli mín og laxins fer hann á fleygiferð og má ég hafa mig allan við að elta hann upp og niður hylinn. Aftur bendi ég Inga á að koma yfir til mín en hann hélt ekki og hvatti mig til að herða bremsuna. Áfram hélt baráttan og eftir þriðju hvatninguna til veiðifélagans um að koma yfir til mín gaf hann mér fyrirmæli um að koma laxinum inn í sef við bakkann þar sem auðvelt væri að landa honum og ég gæti sporðtekið hann. Þetta gekk eftir en ég náði varla utan um sporðinn, svo þykkur var hann. Stöngin brotnaði í þessum átökum.

Nú var ekki um annað að ræða en að veiðifélaginn kæmi til mín og aðstoðaði mig á lokametrunum. Ég hélt ég næði ekki að halda laxinum þann tíma sem það tók Inga að koma til mín en það hafðist.

Þetta var bústin hrygna sem reyndist við mælingu vera 103 sentimetrar að lengd. Gleðin var ósvikin hjá okkur félögunum á bakkanum þegar hrygnan synti aftur í hylinn og kom sér fyrir á notalegum stað."

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.