Að venju er lokað hjá öllum verslunum Vínbúðarinnar um páskana að frátöldum laugardegi 8. apríl. Það er hins vegar ekki lokað hjá öllum þeim vefverslunum sem sprottið hafa upp á undanförnum árum og selja áfengi til Íslendinga.

Vefverslunin Desma verður með opið alla páskana, þar á meðal í dag.

„Þetta er eins og að vera með jólabúð en vera síðan með lokað á jólunum,“ segir Ísak Óli Helgason, eigandi Desma, þegar hann er spurður af blaðamanni út í opnunartíma Vínbúðarinnar um páskana.

Desma er með fjölbreytt úrval af bjór, vín, gini og vodka. Ísak segir rauðvínsúrvalið með því besta hér á landi.

„Áhugafólk um rauðvín er velkomið til okkar. Við erum með fjölbreytt úrval af rauðvíni sem fæst ekki annars staðar.“

Lengri opnunartími um páskana

Vefverslun Desma er vanalega opin á milli fimm og níu á kvöldin á virkum dögum og á milli fimm og tíu um helgar. Ísak segir að Desma ætli að rýmka opnunartímann yfir hátíðarnar.

„Við ætlum að bæta í um hátíðarnar og vera með lengri opnunartíma en vanalega. Desma verður opið frá tvö á daginn til tíu á kvöldin alla páskana.“

Desma er með níutíu mínútna heimsendingartíma á höfuðborgarsvæðinu og getur viðskiptavinurinn valið að borga við afhendingu. Þá hefur Desma nýverið gefið út app utan um vefverslunina.

„Við einhentum okkur í því að vera með einfalt afhendingarferli og að kúnninn geti treyst á að fá vörurnar sendar til sín á skömmum tíma,“ bætir Ísak við.