Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og fyrrum forstjóri Sýnar, varð Íslandsmeistari annað árið í röð í bekkpressu í undir 93 kg og yfir fimmtíu ára á sunnudaginn síðasta. Keppnin var haldin á Akranesi og kepptu alls um 30 í öllum flokkum.

Hann hefur stundað kraftlyftingar í nokkur ár og var staddur í Georgíu á leið á skíði þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum fyrr í dag.

„Arnold Schwarzenegger sagði alltaf að vöðvarnir hafi svo gott minni. Ef þú stuðar vöðvana þá breytist þú bara aftur í 25 ára. Þetta er bara það besta sem maður getur gert á þessum aldri.“

Heiðar stundaði það á fyrri árum að hlaupa maraþon en eftir að hafa fengið brjósklos tvisvar sinnum mátti hann ekki hlaupa meira.

Hann fór síðan að átta sig á því að hann var ekki að gera neinar mótvægisæfingar né æfingar sem virkjuðu hrygginn. Heiðar byrjaði að lyfta 2014-2015 og segir að árangur sé ekki háður aldri.

„Ég held að Ed Thorp, sem skrifaði A Man for All Markets, hafi byrjað sjötugur að lyfta og hann er 91 árs en lítur út eins og hann sé sextugur.“