Sif Jóhannsdóttir er fædd og uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem hún býr enn ásamt eiginmanni sínum, fjórum börnum og tveimur köttum.

Hún starfar sem rekstrarstjóri og ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton.JL en hennar fyrsta veiðiferð var einmitt með vinnufélögunum. „Ég fann um leið að þetta ætti vel við mig. Það er eitthvað svo magnað að vera fullorðin í pollagalla úti í náttúrunni,“ segir Sif um sína fyrstu veiðiferð.

Eftir veiðiferðina ákvað hún að stofna kvennaveiðihópinn Dollý með vinkonu sinni, Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur framkvæmdarstjóra hjá Icelandair. Og þá er Sif einnig í kvennaveiðihópnum Börmunum.

Hver er uppáhalds flugan þín?

Ég fékk geggjaða flugu hjá Haugnum síðasta sumar fyrir ferð í Langá, sú heitir Gamli eftir pabba Haugsins. Við settum hana undir eftir lítið lífsmark og um leið og hún kom út í trylltist fiskurinn.

Hver er stærsti lax sem þú hefur veitt?

Stærsti lax sem hefur komið á land hjá mér er bara 68 cm fiskur. En ég barðist við einn stóran í Norðurá fyrir stuttu sem sleit sig lausann eftir góða baráttu.

Veiðileiðsögumaðurinn okkar vildi meina að hann hefði verið 80 cm sem stemmir, laxarnir sem veiddust hjá okkur voru á bilinu 80 – 88 cm.

Sif (til hægri) ásamt Sylvíu Kristínu, vinkonu sinni.
Sif (til hægri) ásamt Sylvíu Kristínu, vinkonu sinni.

Áttu eftirminnilega og skemmtilega veiðisögu sem þig langar til að deila?

Veiðiferðin til Grænlands var endalaus uppspretta af skemmtilegum sögum.

Á einum tímapunkti var hópurinn allur samankominn á einum stað og vorum átta í einu úti í, og krökkt af fiski. Þeetta var eins og í Stellu í Orlofi, raunverulega. Ein okkar stökk til að hjálpa annarri sem var með fisk á og lagði frá sér stöngina á meðan. Þá byrjaði stöngin á bakkanum að hreyfast, auðvitað komin með fisk á svo hún þurfti að stökkva til, grípa stöngina og landa fisknum sem hún tók á meðan hún var að háfa fyrir aðra.

Viðtalið við Sif má lesa í heild sinni í blaðinu Eftir vinnu sem kom út fyrir helgi. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.