Kristinn Albertsson, fjármálastjóri Samskipa samstæðunnar, hefur sagt starfi sínu lausu frá og með 1. júlí næstkomandi. Hann hefur starfað hjá Samskipum í rúm sautján ár og á þeim tíma að mestu verið staðsettur í Rotterdam.

Hann hóf störf árið 2007 sem fjármálastjóri samstæðu Samskipa og leiddi í upphafi umfangsmiklar umbreytingar á félaginu, meðal annars að færa höfuðstöðvar félagsins til Rotterdam í Hollandi. Í kjölfarið var fjárhagsskipan félagsins endurskipulögð og fjármálasviði samstæðunnar breytt til þess að styðja við vöxt og framtíðaráform Samskipa.

„Þessi tími hjá Samskipum hefur verið einstaklega gefandi og ég er fullur þakklætis fyrir tækifærin og reynsluna sem þessi sautján ár hafa fært mér. Ég mun sakna allra þeirra góðu vina og kollega sem ég hef eignast og fengið að starfa með á þessum tíma,“ segir Kristinn Albertsson, fjármálastjóri Samskip Group.

Frá 2007 hefur velta Samskipa samstæðunnar nær tvöfaldast í evrum talið og er í dag um 800 milljónir evra. Rúmlega 75% af heildarumfangi Samskipa samstæðunnar er utan Íslands. Samskip eru með eigin dótturfélög í yfir 20 löndum og tæplega 80 fyrirtæki eru hluti af samstæðuuppgjöri Samskipa.

„Það verður mikill missir af Kristni sem hefur verið mikilvægur hlekkur í uppbyggingu og umbreytingum á rekstri félagsins undanfarin 17 ár. Við þökkum Kristni góð störf fyrir Samskip og óskum honum velfarnaðar og alls hins besta í framtíðinni,“ segir Kari-Pekka Laaksonen, forstjóri Samskip Group.