Stefanía Guðrún Halldórsdóttir hefur verið ráðin forstjóri sænska tölvuleikjafyrirtækisins Avalanche Studios Group. Hún tekur við stöðunni í ágúst.

Avalanche Studios Group var stofnað árið 2003. Tölvuleikjafyrirtækið, sem er hvað þekktast fyrir Just Cause leikina, er með skrifstofur í Stokkhólmi, New York, Malmö og Liverpool. Í tilkynningu um ráðningu Stefaníu Guðrúnu kemur fram að Avalanche sé að þróa fleiri tölvuleiki en á nokkrum öðrum tímapunkti í 20 ára sögu fyrirtækisins.

Stefanía Guðrún hefur undanfarin tvö og hálft ár starfað hjá Eyri Venture Management og stýrt þar vísisjóðnum Eyri Vexti. Hún mun starfa áfram hjá Eyri fram á sumarið og tekur sæti í ráðgjafarnefnd Eyris Vaxtar.

Þar áður starfaði Stefanía Guðrún hjá Landsvirkjun sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs árin 2018-2020. Þá starfaði hún hjá CCP Games í átta ár og gegndi þar stöðu framkvæmdastjóra CCP á Íslandi, yfirþróunarstjóra CCP í Sjanghæ í Kína sem og þróunarstjóra á Íslandi.

Stefanía Guðrún er með M.Sc. í umhverfisfræðum frá HÍ og B.Sc. gráðu í landafræði frá sama skóla. Auk þess er hún með diplóma í þýsku frá háskólanum í Vínarborg og ígildi stúdentsprófs frá Bundesrealgymnasium í Graz í Austurríki.