Í gærmorgun hófst hlutafjárútboð veiðafæraframleiðandans Hampiðjunnar, en það er öllum opið og mun standa yfir fram á föstudag í næstu viku. Alls verða seld 85 milljón nýútgefin bréf eða um 13,4% hlutur af heildarhlutafé félagsins eftir útboðið, fyrir rétt ríflega 10 milljarða króna.

Segja má að útboðið sé hluti af kafla í sögu félagsins sem hófst fyrir um áratug og einkennst hefur af markvissum vexti, einkum erlendis, og útvíkkun starfseminnar, nú síðast í nóvember síðastliðnum þegar samningar náðust um kaup félagsins á norska fyrirtækinu Mørenot. Kaupin – sem gengu endanlega í gegn í byrjun febrúar – eru stærsta einstaka yfirtakan svo miklu munar.

„Við höfum verið að vaxa mjög mikið undanfarin ár bæði með innri vexti og sífellt stærri yfirtökum, og í raun má segja að kaupin á Mørenot séu hápunktur þeirrar vegferðar til þessa,“ segir Hjörtur Erlendsson forstjóri félagsins, sem hefur þekkt til norska félagsins í áratugi og haft augastað á því í þónokkurn tíma.

Uppbygging félagsins hefur hingað til verið fjármögnuð með eigin hagnaði og lánsfé en skuldastaða Mørenot var þung við yfirtökuna eftir tímabil versnandi afkomu og skuldasöfnunar síðustu ár.

Nánar er rætt við Hjört um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út nú í morgun.