Gera má ráð fyrir að um 10-12 manns, sem áður störfuðu hjá Iceland Express, fái störf hjá Wow air.

Þetta staðfesti Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, í samtali við Viðskiptablaðið í kvöld en sem kunnugt er keypti Wow air rekstur Iceland Express í síðustu viku.

Um 70 manns störfuðu hjá Iceland Express. Rekstur Iceland Express verður gerður upp á næstu misserum og öllum starfsmönnum hefur nú verið sagt upp. Nokkrir starfsmenn Iceland Express voru þó boðaðir í starfsmannaviðtöl hjá Wow air í dag.

Þeir sem fá vinnu hjá Wow eru í öllum tilvikum skrifstofufólk, t.d. í þjónustuveri, tæknimenn og þ.h. Flugmenn Iceland Express voru í starfi hjá tékkneska flugfélaginu CSA Holidays sem var flugrekstraraðili Iceland Express. Þá munu flugliðar ekki fá störf hjá Wow air að sinni en Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow air, hefur í fjölmiðlum í dag hvatt flugliða sem áður störfuðu hjá Iceland Express til að sækja um hjá Wow air fyrir næsta sumar.