Lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli hækka um 72% og farþegagjöld á sama flugvelli hækka um 71%, auk þess mun flugleiðsögugjald hækka um 22%. Samtals munu þessar hækkanir þýða yfir 100 milljóna króna kostnaðaraukningu fyrir Flugfélag Íslands á þessu ári segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Í fréttatilkynningu segir að boðaðar hafi verið frekari hækkanir á næsta ári sem mun, ef af verður þýða aftur hækkun uppá 150 milljónir króna. Hækkanir undanfarinna ára hafa verið verulega íþyngjandi og er nú svo komið að á undanförnum 3 árum hafa gjöld sem eingöngu tengjast notkun flugvalla í innanlandskerfinu tvöfaldast eins og sjá má meðfylgjandi töflu. Þannig greiddi Flugfélag Íslands árið 2009 um 207 milljónir króna í farþega og lendingargjöld en áætla má að á árinu 2012 verði þessi kostnaður um 443 milljónir króna og eru þá meðtalin flugleiðsögugjöld og kolefnisgjald en þau gjöld eru ný gjöld sem ekki voru til árið 2009.

Í tilkynningu segir jafnframt að eftir samdrátt í farþegaflutningum innanlands í kjölfar hrunsins 2008 var á árinu 2011 farið að nást nokkuð jafnvægi í flutningum, það sé hinsvegar ljóst að með þessum fyrirhuguðu gjaldahækkunum sé verið að kollsteypa framtíð innanlandsflugsins. Innanlandsflugið er eina almenningssamgöngukerfið á milli landshluta sem notað er að einhverju marki auk þess að vera mun umhverfisvænni en helsti valkostur farþega sem er einkabíllinn. Flugfélag Íslands skorar því á stjórnvöld að endurskoða þessar miklu hækkanir, samneyti landsbyggðar og höfuðborgar mun ekki geta vaxið og dafnað þar sem hagkvæmar og góðar samgöngur eru lykilþáttur í slíkri vegferð.