Veltan af framleiðslu kvikmynda, sjónvarpsþátta og myndbanda á fyrstu átta mánuðum ársins var 10,5 milljarðar samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Morgunblaðið greinir frá þessu í morgun.

Á síðasta ári nam veltan tæpum 6 milljörðum króna og því er ljóst að um talsverða aukningu er að ræða. Í samtali við Morgunblaðið segir Snorri Þórisson, eigandi framleiðslufyrirtækisins Pegasus, að tvö stór verkefni eigi mikinn þátt í veltu Pegasusar á árinu: sjónvarpsþátturinn Fortitude og kvikmyndin Sepia sem framleidd var fyrrir fyrirtæki í eigu Ridley Scott.

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna, segir að þótt atvinnuleysi í greininni hafi minnkað sé enn erfitt að fjármagna innlend kvikmyndaverkefni og að kvikmyndagerðarmenn eigi í vandræðum með launakjör.