Í desembermánuði nam halli á vöruviðskiptum við útlönd 8,1 milljarði króna en þá voru fluttar út vörur fyrir 41,4 milljarða króna, en inn fyrir 49,5 milljarða.

Á sama tíma árið 2015 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 9,3 milljarða króna, á gengi hvors árs, að þvi er fram kemur í frétt Hagstofunnar.

Innflutningur nam 645,7 milljörðum

„Árið 2016 voru fluttar út vörur fyrir 537,3 milljarða króna en inn fyrir 645,7 milljarða króna fob (687,8 milljarða króna cif)," segir í fréttinni.

„Halli var því á vöruviðskiptum við útlönd sem nam 108,4 milljörðum króna, reiknað á fob verðmæti.

Árið 2015 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 30,6 milljarða á gengi hvors árs. Vöruviðskiptajöfnuðurinn var því 77,8 milljörðum króna lakari árið 2016 en árið áður.

Útflutningur nam tæpum 90 milljörðum

Árið 2016 var verðmæti vöruútflutnings 88,7 milljörðum króna lægra, eða 14,2%, á gengi hvors árs, en árið 2015.

Iðnaðarvörur voru 50,3% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 18,3% lægra en árið 2015, aðallega vegna lægra álverðs. Sjávarafurðir voru 43,1% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 12,4% lægra en árið 2015.

Innflutningur lækkaði milli ára

Árið 2016 var verðmæti vöruinnflutnings 10,9 milljörðum króna lægra, eða 1,7%, á gengi hvors árs, en árið 2015.

Aðallega dróst innflutningur á hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti saman en á móti jókst innflutningur á flutningatækjum."