Frá því að Kringlan var opnuð árið 1987 hafa tæplega 125 milljónir gesta lagt leið sína þangað. Árlega eru það um fimm milljónir gesta. Þetta kemur fram í nýju afmælisriti sem Kringlan gaf út í tilefni af 25 ára afmæli versl­unarstaðarins.

Bókin er gefin út í samstarfi við Almenna bóka­félagið og Sigurður Már Jónsson ritstýrir bókinni. Fram kemur í fréttatilkynningu að Kringlan hafi verið fjölsóttasti verslunar­staður Íslendinga í aldarfjórðung en í dag eru þar yfir 170 rekstrareiningar.

„Bygging hennar er öflugur vitnisburður um stórhug og djörfung í viðskiptum sem á sér fáar hliðstæður hér á landi. Með sanni má segja að með opnun Kringlunnar hafi hafist nýr kafli í verslunarsögu þjóðarinnar en rekstur Kringlunnar hefur reynst sérlega farsæll. Í Kringlunni starfa nú ríflega þús­und manns. Því er óhætt að segja að hún sé samfélag út af fyrir sig og rúmast þar nánast allar starfsstéttir, svo sem bókasafns­fræðingar, úr­ og gullsmiðir, læknar, kokkar, afgreiðslufólk, þjónar, ræstitæknar og sjúkraþjálfarar.

Kringlan hefur vaxið úr því að vera verslunarmiðstöð í það að verða verslunar­, menn­ingar­ og mannlífsmiðpunktur þar sem saman fer fjöldi versl­ana, fjölbreytt þjónusta, kvikmyndahús, leikhús og bókasafn“, segir í fréttatilkynningunni.