Umferðin á hringveginum í júní jókst um 12,7% frá sama mánuði í fyrra, sem er mesta aukning milli ára í júní frá upphafi mælinga Vegagerðarinnar árið 2005. Alls fóru að meðaltali rúmlega 98 þúsund ökutæki daglega um hringveginn í júní borið saman við rúmlega 87 þúsund á sama tíma í fyrra.

Mest jókst umferðin um Suðurland eða um 15%, en minnst um Norðurland eða 7%. Frá áramótum hefur umferðin á hringveginum aukist um 12,5% og er útlit fyrir að umferðin í heild aukist um 7–8% á árinu. Það yrði einungis helmingur þess sem umferðin jókst um í fyrra en yrði eigi að síður næst mesta aukning milli ára frá upphafi mælinga.