Landsréttur ómerkti fyrir helgi fimm dóma í málum innflutningsfyrirtækja á hendur íslenska ríkinu. Samanlögð krafa félaganna hljóðar upp á 1,6 milljarða króna. Ástæðan fyrir ómerkingunni er hve langan tíma það dróst hjá héraðsdómi málsins að kveða upp dóm.

Félögin fimm, það er Hagar verslanir, Bananar, Sælkeradreifing, Innnes og Festi, höfðuðu málin í apríl 2018 en þau krefjast þess að tollar á landbúnaðarvörum vegna fyrri ára verði endurgreiddir þar sem álagning þeirra standist ekki lög. Krafan byggir á því löggjöfin hafi falið í sér valkvæða heimild handa ráðherra til að leggja á tolla. Slíkt standist ekki ákvæði stjórnarskrár um að skattar skuli lagðir á með lögum.

Í héraði var íslenska ríkið sýknað þar sem þingið hefði sett valdi ráðherra ákveðinn ramma. Því væri ekki farið á svig við lagaáskilnað stjórnarskrárinnar í þessum efnum.

Dómunum fimm, sem kveðnir voru upp í maí í fyrra, var áfrýjað til Landsréttar. Í úrskurðum Landsréttar kemur fram að þau hafi verið munnlega flutt og dómtekin 7. mars 2019. Þann 10. maí sama ár voru þau endurupptekin þar sem meira en átta vikur höfðu liðið frá fyrri málflutningi. Fært var í þingbók að lögmenn hefðu reifað málið stuttlega, vísað í fyrri málflutning, ítrekað gerðar kröfur og lagt það í dóm. Málið var dómtekið strax í kjölfarið og dómarnir kveðnir upp í beinu framhaldi af því þann sama dag.

Að mati Landsréttar var ekki hjá því komist að ómerkja dómana fimm af þessum sökum þar sem þeir hefðu ekki verið kveðnir upp að réttu lagi.