Tekjujöfnuður ríkisins á síðasta ári var jákvæður um 20 milljarða króna, sem er í samræmi við áætlanir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Afgangurinn er talsvert minni en árið 2014, þegar hann var 46,4 milljarðar.

Í tilkynningunni segir að tekjur ársins 2015 hafi verið nokkuð umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum. Það skýrist af arðgreiðslum fjármálafyrirtækja og styrkari skattstofnum vegna aukinna umsvifa í þjóðfélaginu og var tekið tillit til þessarar aukningar í fjáraukalögum.

Gjöldin voru nokkuð umfram heimildir fjárlaga en auknar heimildir voru samþykktar með fjáraukalögum ársins til að mæta meðal annars auknum útgjöldum vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna og gerðardóms, fjármagnskattgreiðslum ríkissjóðs og öðrum þáttum, að því er segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra að stöðugleiki í efnahagsumhverfinu, öflugur hagvöxtur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar á undanförnum misserum hafi stutt mjög við kaupmáttaraukningu almennings og bætt afkomu ríkissjóðs. „Í samræmi við ábyrga stjórn ríkisfjármála var stefnt að jákvæðum heildarjöfnuði ríkissjóðs á árinu 2015 og endurspeglaði sú stefna að tekist hafði með markvissum aðgerðum að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum,“ segir Bjarni.