Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ítrekaði í dag stuðning Íslands við fórnarlömb stríðsátakanna í Sýrlandi á alþjóðlegri ráðstefnu um Sýrland í Brussel.

Ráðherrann lagði einnig áherslu á þá afstöðu Íslands að þeir sem ábyrgð bera á stríðsglæpum sem framdir hafa verið í Sýrlandi séu dregnir til ábyrgðar.

Jafnframt tilkynnti hann um að íslensk stjórnvöld myndu leggja 200 milljónir króna á ári til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi og nágrannaríkjunum til ársins 2020 til viðbótar við framlög til móttöku flóttamanna.

Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að standa vel að bæði móttöku flóttamanna og styðja neyðaraðstoð á vettvangi.

„Við getum ekki vakið þá til lífs sem fórust í Idlib í gær. En við getum og eigum að rannsaka þessa skelfilegu árás, leita réttlætis fyrir fórnarlömbin og refsa þeim sem bera ábyrgð á henni. Okkur ber að hjálpa þeim sem lifðu af og að gera það sem hægt er til að fórnarlömbunum fjölgi ekki,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ennfremur áréttaði hann í ávarpi sínu að tryggja yrði aðgengi hjálparstarfsmanna og hjálpargagna til bágstaddra í Sýrlandi, og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og aðrir hlutaðeigandi aðilar þrýstu á um að stríðandi fylkingar settust að samningaborðinu, því öðruvísi linnti hryllingnum í Sýrlandi ekki.