Hagnaður Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupstað jókst um rúm 21% á síðasta ári, úr 27, 3 milljónum Bandaríkjadala í 33 milljónir Bandaríkjadala, eða sem samsvarar tæplega 4,2 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi.

Námu rekstrartekjurnar á árinu 200,9 milljónum dala, sem er aukning um 15,4% frá 174 milljóna rekstrartekjum árið áðir. Rekstrargjöldin jukust á sama tíma um 11,4%, úr 130 milljónum í 144,9 milljónir dala.

Hagnaður félagsins fyrir skatt jókst um 22,1%, úr 33,2 milljónum dala í 40,6 milljónir dala, meðan skattgreiðslurnar jukust um nærri 26,6%, úr tæplega 6 milljörðum í rúmlega 7,5 milljónir dala, eða sem samsvarar 947,6 milljónum króna.

Eigið fé félagsins jókst um tæp 6%, úr 316,1 milljón dala í 334 milljónir dala, eða 42,3 milljarða króna en skuldirnar jukust um 40,2%, úr 32,3 milljónum dala í 45,3 milljónir Bandaríkjadala. Heildareignirnar jukust því um 3,5%, úr 493,9 milljónum í rúmar 511,3 milljónir dala eða 64,7 milljarða króna.

Gunnþór Björn Ingvason er framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, en af 292 hluthöfum, sem fækkaði um 5 á árinu, er Samherji stærstur með tæplega 45%, Kjálkanes ehf. næst stærst með rúm 34%, Samvinnufélag útgerðarmanna á Neskaupstað þriðji stærsti eigandinn með tæplega 11% og loks er Eignarhaldsfélagið Snæfugl ehf. fjórði stærsti eigandinn með um 5,3%.