Alls 226 starfsmenn Símans hafa gert kaupréttarsamning við félagið sem ná til allt að 30.874.312 hluta á ári miðað við 100% nýtingu kauprétta.

Kaupréttarsamningarnir eru í samræmi við samþykkta kaupréttaáætlun frá því á aðalfundi félagsins í mars í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum til Kauphallarinnar í gær.

Samkvæmt áætluninni öðlast hver kaupréttarhafi rétt til að kaupa hluti í Símanum hf. fyrir að hámarki 1,5 milljónir króna einu sinni á ári í þrjú ár, eftir birtingu hálfsársuppgjörs fyrir árin 2024, 2025 og 2026.

Kaupverð hluta er á genginu 10,98 krónum á hlut, sem er vegið meðalverð í viðskiptum með bréf félagsins síðustu tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag, sem er 17. maí síðastliðinn.

Í kaupréttaráætluninni segir að markmið hennar sé „að tengja hagsmuni starfsmanna félagsins við afkomu og langtímamarkmið félagsins og hluthafa þess.“

Sex stjórnendur Símans fengu einnig úthlutaða kauprétti í síðustu viku. Hver og einn stjórnandi fékk úthlutaða kauprétti að bréfum í félaginu að verðmæti 4,5 milljónum króna á genginu 10,98.