Rétt rúmlega fjórar milljónir króna fengust upp í lýstar kröfur í þrotabú Sýreyjar ehf. en lýstar kröfur voru tæplega 278 milljónir. Félagið var stofnað af lögmanninum Sigurmari K. Albertssyni en hann er eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur, fyrrverandi þingmanns og ráðherra Vinstri grænna.

Sagt er frá skiptalokunum í Lögbirtingablaðinu í dag. Félagið var stofnað árið 2005 og var tilgangur þess kaup, rekstur og sala fasteigna, jarða og annarra eigna. Upp í lýstar kröfur, sem allar voru almennar í réttindaröð, fékkst því rétt rúmt 1,5%. Þá var krafa að fjárhæð rúmlega 12 þúsund krónur greidd af skiptastjóra áður en til úthlutunar kom.

Sýrey er vafalaust kunnugt fólki úr Panama-skjölunum en það var í eigu félagsins Holt Investment Group, skráðu á Tortóla. Það félag var síðan í eigu Holt Holdings SA skráðu í Lúxembourg.

Eftir að sagt var frá tilvist félagsins , á vormánuðum 2016, ritaði Álfheiður á Facebook-síðu sinni að félagið hefði verið stofnað af eiginmanni hennar fyrir Kaupþing. Tilgangur þess hefði verið að ganga frá uppgjöri skulda ónafngreinds einstaklings við bankann. Sigurmar hafi ekki haft nein afskipti af því frá febrúar 2006. Það ítrekaði Sigurmar í yfirlýsingu sjálfur síðar sama dag.