Seðlabanki Ungverjalands hækkaði stýrivexti sína í morgun um 300 punkta upp í 11,5%.

Að sögn BBC kemur stýrivaxtahækkunin í kjölfar mikillar gengislækkunar ungverska forintsins en greiningaraðilar telja þó að hækkunin hafi takmörkuð áhrif.

Þá kemur fram að stýrivaxtahækkun bankans hafi komið nokkuð á óvart þar sem talsmaður bankans sagði á mánudag að ekki væri von á stýrivaxtahækkun.

Ónefndur greiningaraðili segir í samtali við BBC að stýrivaxtahækkun nú sé illa til fundin og muni bera af sér slæmar afleiðingar.

Þá segir Nigel Rendell, greiningaraðili hjá Royal Bank of Canada að engar líkur séu á hagvexti í Ungverjalandi fyrr en eftir árið 2009.

Ungverjaland á nú, líkt og Íslendingar, í viðræðum við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (IMF).