Eignasafn Seðlabankans (ESÍ) hefur samið við Sparisjóð Vestmannaeyja um endurútreikning og lækkun erlendra skulda sjóðsins sem nemur 330 milljónum króna. „Í endurskipulagningunni sem Seðlabankinn tók þátt í við árslok 2010 stóð bankinn eftir með kröfu á Sparisjóð Vestmannaeyja sem hann svo framseldi til ESÍ,“ segir í svari Seðlabankans við fyrirspurn um hið erlenda lán.

Um er að ræða erlenda lánalínu sem sparisjóðurinn hafði við Sparisjóðabankann á sínum tíma. Kostnaður vegna þessa fellur á ESÍ. Viðskiptablaðið innti Seðlabankann eftir hvort sambærilegur kostnaður kunni að falla til vegna endurskipulagningar annarra sparisjóða. „Við getum því miður ekki tjáð okkur um viðskipti ESÍ við aðra sparisjóði þar sem ESÍ er háð trúnaði við þá. En ef um einhverja slíka leiðréttingu er að ræða þá mun hún að öllum líkindum koma fram í ársreikningum viðkomandi sjóða.“