Fyrstu sex mánuði ársins voru heildarútgjöld ríkissjóðs innan fjárheimilda. Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri sem sýnir stöðu fjármála hjá einstökum aðilum ríkisins sem tilheyra A-hluta ríkissjóðs.

heildarútgjöld 353 milljarðar

Var meirihluti fjárlagaliða innan fjárheimilda á tímabilinu, en heildarútgjöldin námu 353 milljörðum króna, og voru 8,2 milljarðar króna innan fjárheimilda.

Ef við bætum við það sem var innan fjárheimilda í lok síðasta árs, teljast 14,3 milljarðar króna vera innan heildarfjárheimilda fyrir tímabilið.

Heildarafgangur 17,3 milljarðar

Alls 190 fjárlagaliðir eru með útgjöld innan fjárheimilda tímabilsins, og nemur afgangur þeirra samtals 17,3 milljörðum króna. Eru þar af 97 fjárlagaliðir með meira en 10% afgang af fjárheimildum, eða alls 13,1 milljarð króna. Alls er um 11,1 milljarður samanlagt í afgang af þeim 15 fjárlagaliðum sem hafa mestan afgang.

Til þeirra sem hafa mestan afgang teljast Vegagerðin með 3 milljarða, daggjöld öldrunarstofnana með 1,9 milljarða króna afgang, Atvinnuleysistryggingasjóður með 1,3 milljarð króna afgang og vaxtagjöld ríkissjóðs með 0,9 milljarð króna afgang.

Umframeyðsla 9,1 milljarður

Þeir fjárlagaliðir sem eru með útgjöld umfram fjárheimildir eru samtals 169, og nema þau samtals 9,1 milljarði króna. Fáir liðir skýra stærstan hluta umframteknanna, eru 15 stærstu hallaliðirnir með um 5,9 milljarða króna, eða sem nemur um 65% heildarhallans.

Eru mestu frávikin í útgjöldum vegna sjúkratrygginga, eða um 1,4 milljarðar, lífeyristrygginga, um 0,8 milljarðar króna og lífeyrisskuldbindingar, um 0,8 milljarðar króna. Eru 76 fjárlagaliðir með halla undir 20 milljónum króna hvert.