Innheimta eignaskatta nam tæpum 11 milljörðum króna í nóvemberlok sem er aukning upp á 44,2% á milli ára. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins. Þá má einnig nefna að aukning í innheimtu stimpilgjalda nam tæplega 62,8% frá fyrra ári enda hefur landslagið á lánamarkaðinum tekið miklum breytingum á árinu sem hefur stuðlað að því að margir sjá kostina við að skuldbreyta lánum sínum.

Innheimta veltuskatta ríkissjóðs hefur einnig aukist eða um 12,7% frá
fyrra ári sem nemur 9,3% að raungildi. Þar munar mestu um innheimtu tekna af virðisaukaskatti, sem jafngildir 9,7% raunhækkun. Af öðrum óbeinum sköttum má nefna að talsverð aukning var í innheimtu vörugjalda af ökutækjum, eða um 36,4%. Sú aukning stafar fyrst og fremst af auknum
innflutningi bifreiða en á fyrstu ellefu mánuðum ársins hefur nýskráning
bifreiða aukist um 27,6% frá sama tímabili í fyrra.