*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 7. júní 2021 19:45

Yfir 50 milljarða boð á fyrsta degi

Þegar hafa borist tilboð í alla þá hluti sem stendur til að selja í Íslandsbanka.

Ritstjórn
Bankasýsla ríksins heldur á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem er á leið á markað síðar í mánuðinum.

Íslandsbanki hefur þegar fengið tilboð í alla þá hluti sem til stendur að selja í hlutafjárútboði bankans, þar með talið valrétt til að stækka útboðið í 35% af söluandvirði bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bankasýslu ríkisins og Íslandsbanka en útboðið hófst klukkan 9 í morgun og er með stærri hlutafjárútboðum sem haldin hafa verið hér á landi á undanförnum árum.

Í tilkynningunni kemur fram að „áskriftir hafa borist fyrir þeim hlutum sem í boði eru í útboðinu umfram efri mörk útboðsstærðar, þ.m.t. valréttarhluti, á öllu verðbilinu.“

Selja á að lágmarki 25% hlut í útboðinu en heimilt að stækka útboðið í allt að 35% hlut í Íslandsbanka. Sé miðað við neðra gildi útboðsbilsins hafa því að borist tilboð upp á yfir 50 milljarða króna í 35% hlut í bankanum.

Í morgun var tilkynnt um að þegar væri búið að tryggja skuldbindandi tilboð í 10% hlut í bankanum til kjölfestufjárfesta, en það eru Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors og RWC Asset Management LLP. 

Útboðið heldur engu síður áfram og mun standa fram á hádegi þriðjudaginn 15. júní.

Verðbilið í útboðinu var á 71 til 79 krónur á hlut en miðað við miðgildi verðbilsins er bankinn um 150 milljarða króna virði. Ríkið á nú bankann að fullu og verður áfram meirihlutaeigandi bankans eftir útboðið.