Levi’s á Íslandi mun opna sína þriðju verslun á Hafnartorgi um mánaðamótin júlí og ágúst. Levi’s snýr nú aftur í miðbæinn eftir fimmtán ára fjarveru frá því að fataverslunin lokaði á Laugaveginum.

„Það er ákveðinn tímapunktur að fá 501 aftur í 101,“ segir Lilja Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Levi’s á Íslandi, og vísar þar í frægu 501 buxurnar sem eru mest seldu gallabuxur í heiminum. Hún segist hafa haft augun á miðbænum í nokkur ár og telur að nú sé rétti tíminn til að snúa aftur.

Lilja og eiginmaður hennar, Hrafnkell Reynisson, stofnuðu Denim árið 2003 þegar þau tóku við umboðinu fyrir Levi’s fatnað á Íslandi. Þá var fyrirtækið einungis með verslunina á Laugveginum en sama ár opnuðu þau verslun í Smáralindinni. Árið 2006 opna þau aðra verslun í Kringlunni og loka í kjölfarið búðinni í miðbænum.

„Það var okkar mat þá að nóg væri að hafa tvær Levi‘s verslanir á höfuðborgarsvæðinu og við völdum að hafa þær frekar í verslunarmiðstöðvunum. Salan hafði ekki verið jafngóð á Laugaveginum en hafa verður í huga að ferðamannastraumurinn var ekki byrjaður á þeim tíma. Við teljum að núna sé miðbærinn að lifna við og höfum mikla trú á þessu Hafnartorgi,“ segir Lilja.

Stór meirihluti viðskiptavina Levi‘s í Kringlunni og Smáralindinni hafa verið Íslendingar en með versluninni á Hafnartorgi bindur Lilja vonir við að þjónusta ferðamenn í auknum mæli. Hún segir reksturinn hafa gengið ágætlega síðastliðið ár þrátt fyrir erfitt ástand í upphafi faraldursins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um fjárfestingu auðmanns í lúxushóteli á Íslandi.
  • Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, ræðir afkomu félagsins í fyrra, mikilvægi hækkunar á endurgreiðsluhlutfalli rannsókna- og þróunarkostnaðar og ýmislegt fleira.
  • Ýtarleg úttekt á kjaramálum Play og hvernig þau ríma við fullyrðingar ASÍ.
  • Rætt er við nýja fjármálastjóra Play um stofnun sprotafyrirtækis í fæðingarorlofi og fjögurra ára búsetu í Japan.
  • Stýrivaxtahækkun Seðlabankans og Peningamál krufin
  • Sagt er frá deilu við ríkið um hvaða toll greiða eigi af jurtaostum.
  • Fjallað er um mikinn áhuga á íbúðum í Austurhöfn.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um samkeppnismál.
  • Óðinn fjallar um Seðlabankann og ÁTVR.