*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 24. september 2018 09:33

60% af olíunni fara í iðnað og skip

Forstjóri Olís segir einkabílinn einungis bera ábyrgð á 3-5% af mengun, og bendir á skip, flugsamgöngur og uppþurrkað votlendi.

Ritstjórn
Jón Ólafur Halldórsson hefur verið forstjóri Olís frá árinu 2014.
Eva Björk Ægisdóttir

Jón Ólafur Halldórsson forstjóri Olís segir að einkabíllinn skapi ekki nema 3-5% af menguninni sem hann segir alla sammála um að berjast verði gegn. „Pólitíkinni hefur hentað vel að sleppa flugsamgöngum og beina sjónum öðru fremur að einkabílnum í umræðu um mengun og loftslagsmál,“ segir Jón Ólafur í Morgunblaðinu.

„Það er mikil einföldun því það er svo margt sem hefur áhrif svo sem endurheimt votlendis sem getur unnið gegn gróðurhúsaáhrifum.“

Jón Ólafur segir jafnframt mikilvægt að heimurinn komi sér úr þeirri stöðu að vera algerlega háður einum orkugjafa. „Um 60% af allri þeirri olíu sem Olís selur fari til iðnaðar og á fiskiskipaflotann, á skip sem þó séu verulega eyðsluminni en áður,“ segir Jón Ólafur.

„Þá sé flugið ótalið sem mikill mengunarvaldur; útblástur frá farþegaþotunum sitji ofarlega í lofthjúpnum og sé því mjög skaðlegur.“ Segir hann fjölorkustöðvar vera spennandi leið fyrir olíufélag eins og Olís, en hann segir hraða þróunarinnar yfir í t.d. metan- og hybrid bíla sem fáist nú tiltölulega ódýrt, velta á þeim hagrænu hvötum sem stjórnvöld skapa.

„Hins vegar hef ég aldrei mikla trú á boðum og bönnum, svo sem því að hætta skuli nýskráningu bensín- og díselbíla árið 2030 eins og ríkisstjórnin boðaði á dögunum. Markaðurinn þarf að hafa svigrúm til þess að finna bestu og hagkvæmustu lausnirnar.“