Félagið Háblær ehf., sem er í eigu franska orkufyrirtækisins Qair og Arion banka, fjárfesti í vindorkuverinu í Þykkvabæ fyrir samtals 619,3 milljónir króna á síðustu tveimur árum.

Arion banki eignaðist fyrir nokkrum árum þrotabú Biokraft sem hafði reist tvær vindmyllur í Þykkvabæ sem gangsettar voru árið 2014. Vindmyllurnar tvær höfðu báðar eyðilagst og stóðu aðgerðalausar um nokkurt skeið. Háblæ var falið að taka gömlu vindmyllurnar niður og reisa tvær nýjar á sömu undirstöðum.

Nýju vindmyllurnar, sem voru gangsettar í lok síðasta árs, eru minni en um 50% aflmeiri, eða um 900 kW hvor um sig. Háblær er með samning við HS Orku um kaup á orkunni.

Alls eru nú fjórar vindmyllur starfræktar hér á landi sem framleiða raforku inn á raforkudreifikerfið en Landsvirkjun rekur fyrir tvær samskonar vindmyllur í rannsóknarskyni norðan við Búrfell.

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Háblæs, segir í samtali við Viðskiptablaðið að næstu skref félagsins séu óráðin en hlutverk þess hafi einfaldlega verið að koma verkefninu á koppinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér og blaðið hér.