Hugvitsemi og sköpunargleði íslenska barna og unglinga eru engin takmörk sett eins og glögglega kom í ljós í Myndbandakeppni 66°Norður sem staðið hefur yfir í grunnskólum landsins undanfarnar vikur. Alls tóku 70 grunnskólar víðs vegar að á landinu þátt í keppninni en hugmyndin að henni kemur frá Sigurjóni Sighvatssyni, kvikmyndagerðarmanni og eiganda 66°Norður, en hann vildi gefa börnum sem hafa áhuga á kvikmyndagerð tækifæri til þess að spreyta sig á þeim vettvangi að því er segir í tilkynningu.

Verðlaunafhending í keppninni fór fram sl. laugardag í verslun 66°Norður í Faxafeni og var góð stemmning meðal verðlaunahafa og fjölmargra gesta sem þangað komu. Háteigsskóli sigraði í yngri aldurshópnum og Austurbæjarskóli bar sigur úr býtum í eldri flokknum. Bjarki Kjartansson frá Akureyri fékk sérstaka viðurkenningu fyrir sitt framlag til keppninnar. Þema keppninnar í ár var íslenskur iðnaður.

,,Það var mjög gaman að sjá hversu skemmtileg, fjölbreytt og vel gerð myndböndin voru og hvað nemendurnir sýndu mikið hugmyndaflug við gerð þeirra. Vafalítið eru í þessum efnilega hópi einhverjir framtíðar kvikmyndagerðarmenn,” segir Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra í tilkynningu en hún sat í dómnefnd ásamt þeim Júlíusi Kemp leikstjóra, Sigurjóni Sighvatsssyni kvikmyndagerðarmanni og Böðvari Bjarka Pétursssyni, skólastjóra Kvikmyndaskóla Íslands. Myndböndin frá nemendunum voru einnig sett á netið þar sem netkosning fór fram og vóg niðurstaða hennar inn í mat dómnefndar.