Nýherji, Applicon, Skyggnir og TM Software hafa tekið höndum saman í Microsoft lausnum um að aðstoða viðskiptavini við að ná heildaryfirsýn yfir rekstur tölvukerfa, hámarka afköst þeirra og tryggja lækkun kostnaðar.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu en hjá fyrirtækjunum starfa yfir 70 vottaðir Microsoft sérfræðingar.

„Hjá fyrirtækjunum fjórum er hægt að fá heildstæðar Microsoft lausnir á einum stað en þau bjóða viðskiptavinum meðal annars hugbúnaðarlausnir, viðskiptamannalausnir, hýsingu, leyfissölu, ráðgjöf og samþættingu kerfa,” segir Snæbjörn Ingi Ingólfsson deildarstjóri Samþættingarlausna hjá Skyggni í tilkynningunni.

Þar kemur fram að Applicon sérhæfir sig m.a. í CRM viðskiptalausnum og viðskiptagreind, TM Software er með SharePoint , samþættingarlausnir og veflausnir, Nýherji sérhæfir sig í sölu og leigu á Microsoft leyfum og Skyggnir annast rekstur og almenna ráðgjöf á Microsoft kerfum.

Snæbjörn segir að fjölmörg fyrirtæki hafi fjárfest í vél- og hugbúnaði en ekki náð að samnýta þau sem skyldi.

„Okkar markmið felst í því að aðstoða viðskiptavinina við að hámarka nýtingu fjárfestinga tengdum upplýsingatæknimálum m.a. að viðskiptavinir fái þau gögn og upplýsingar sem máli skipta úr kerfunum. Við getum farið yfir allan búnað; vélbúnað og hugbúnað, og metið ástand hans. Stærð fyrirtækisins og umfang skiptir þar engu máli; öll fyrirtæki lúta sömu lögmálum þegar kemur að þessum þáttum. Þá er mikilvægt að fara yfir Microsoft leyfi fyrirtækisins og meta hvað megi betur fara,” segir Snæbjörn í tilkynningunni.

Hann segir að fyrirtæki sem hafa heildarsýn yfir upplýsingakerfi sín fái stöðugri kerfi, hærri uppitíma og aukið rekstraröryggi.

Sífellt fleiri fyrirtæki útvista rekstri tölvukerfa sinna, að sögn Snæbjarnar. Þau geti útvistað ýmsum þáttum í tölvukerfum sínum, allt frá því að afrita gögn til þess að þjónustuaðili sjái alfarið um rekstur tölvukerfisins. „Þau fyrirtæki sem velja að útvista öllum rekstri tölvukerfa sinna geta alfarið einbeitt sér að eigin kjarnastarfsemi. Þau hækka því þjónustustig sitt og sjá einungis fastan og fyrirsjáanlegan kostnað. Markmiðið er að þau fái enga bakreikninga.Fyrirtæki skapa sér heldur ekki samkeppnisforskot með því að reka eigið tölvukerfi,“ segir Snæbjörn í tilkynningunni.