*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Erlent 26. febrúar 2020 08:49

800 milljarða hagnaður Rio Tinto

Eigandi og rekstraraðili álversins í Straumsvík hagnaðist um 6,2 milljarða dollara í fyrra. Endurskoðun á rekstri hér stendur yfir.

Ritstjórn

Hagnaður Rio Tinto, sem meðal annars á og rekur álverið í Straumsvík, nam 6,2 milljörðum dollara á síðasta rekstrarári. Það jafngildir um 800 milljarða króna hagnaði. Þetta má lesa úr ársreikningi félagsins sem birtur var í dag.

Í ársreikningnum kemur einnig fram að framleiðsla félagsins hafi dregist saman um tvö prósent á síðasta ári en þann samdrátt má að stærstum hluta rekja til álversins hér á landi. Loka þurfti einum kerskála félagsins í Straumsvík á síðasta ári eftir að ljósbogi myndaðist í honum og tók langa stund að koma honum í gagnið á ný.

Nýverið tilkynnti félagið að það hefði hafið úttekt á rekstri álversins hér á landi. Til stæði að velta við hverjum steini til að reyna að bæta afkomu þess. Álverið er keyrt áfram um þessar mundir á 85% afköstum. Meðal annars er til skoðunar að draga enn frekar úr framleiðslu eða hætta henni alfarið. Tilkynningin var sambærileg þeirri er birt var á síðasta ári vegna álvers félagsins í Nýja Sjálandi.

Álverið í Straumsvík hefur verið í söluferli að undanförnu og er það í ársreikningnum fært meðal eigna til sölu.

Stikkorð: Rio Tinto Straumsvík