Samkvæmt áætlun Alþingis á önnur umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar að fara fram núna á fimmtudag en frumvarpið berst ekki fjárlaganefnd í tæka tíð til að hægt sé að afgreiða það samkvæmt Vigdísi Hauksdóttur, formanni nefndarinnar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Aðeins 29 þingmál ríkisstjórnarinnar hafa komið til Alþingis en samkvæmt áætlun áttu 129 mál að koma til þings fyrir jólafrí. Þingmenn minnihlutans hafa undanfarið kvartað yfir verkefnastöðu á Alþingi og óska eftir því að ríkissjórnin skili þeim málum sem hún var búin að lofa til þingsins.