Aðalfundur Kaupþings [ KAUP ], sem lauk á sjöunda tímanum í kvöld, samþykkti heimild til stjórnar um útgáfu breytanlegs skuldabréfs að fjárhæð 1,5 milljarða evra. Stjórninni var jafnframt heimilað að hækka hlutafé félagsins um allt að 1,75 milljarða króna að nafnverði til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt breytanlega skuldabréfinu vilji eigendur þess nýta breytiréttinn. Heildarhlutafé Kaupþings er 7,4 milljarðar króna og verði heimildin fullnýtt þýðir það um 24% aukningu hlutafjár.

Í rökstuðningi stjórnar, sem fundarstjóri, Kristján Þorbergsson, las upp, sagði að mikilvægt væri við núverandi markaðsaðstæður að hafa fjölbreyttar fjármögnunarleiðir. Fram kom að markaður með breytanleg skuldabréf hefði haldist sterkur þrátt fyrir að markaðir almennt hefðu veikst. Ennfremur kom fram í rökstuðningi stjórnar að yrði bréfinu breytt mundi það breikka hluthafahópinn og ef til vill fjölga erlendum hluthöfum eins og stefnt væri að.