Actavis Group hefur gengið frá samningi um kaup á samheitalyfjastarfsemi alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Alpharma Inc. Kaupverðið nemur 810 milljónum dala eða um 50 milljörðum króna. Markmið Actavis er að vera í hópi leiðandi fyrirtækja í heiminum á sviði þróunar, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Kaupin eru mikilvægur áfangi að því marki en með þeim er Actavis orðið eitt af fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims. Sameiginlegt fyrirtæki verður með starfsemi í 32 löndum og með um 10.000 starfsmenn.

Eftir kaupin verður Actavis með sterka markaðsstöðu í Bandaríkjunum og Evrópu en um 35% af tekjum fyrirtækisins munu koma frá Bandaríkjunum. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda og búist er við að gengið verði formlega frá kaupunum í desember nk. Sameinað félag býr yfir fjölbreyttu lyfjaúrvali með yfir 600 lyf á markaði og hefur yfir 200 lyf í þróun og skráningu. Er þess vænst að það leggi inn a.m.k. 30 umsóknir um markaðsleyfi í Bandaríkjunum á næsta ári. Framleiðslugeta Actavis eykst verulega með verksmiðjum Alpharma í Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi, Kína og Indónesíu.