Samstarfssamningur milli Actavis og Vilnius, höfuðborgar Litháen, um þátttöku Vilnius í forvarnarverkefni evrópskra borga var undirritaður um helgina í höfuðstöðvum Actavis í Hafnarfirði, segir í tilkynningu. Forseti Íslands og borgarstjórinn í Reykjavík voru viðstaddir undirritunina.

Það voru Svafa Grönfeldt, aðstoðarforstjóri Actavis og Arturas Zuokas borgarstjóri Vilnius sem undirrituðu samninginn, sem er til fimm ára.

Forvarnarverkefnið "Youth in Europe - A drug Prevention Programme" er samstarfsverkefni evrópskra borga. Markmið verkefnisins er að rannsaka fíkniefnaneyslu evrópskra ungmenna, bera saman ólíkar forvarnaraðgerðir og virkja stofnanir og almenning til aðgerða gegn fíkniefnavá. Verkefninu er stýrt frá Íslandi. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er verndari þess og Reykjavíkurborg leiðir samstarfið, en Actavis er aðal styrktaraðili verkefnisins.

Svafa Grönfeldt, aðstoðarforstjóri Actavis, segir verkefnið falla mjög vel að stefnu fyrirtækisins. "Við leggjum áherslu á að taka þátt í samfélagslegum verkefnum eins og þessu, sem hafa það markmið að vinna gegn fíkniefnaneyslu ungmenna. Okkur er sérstök ánægja að styðja við slíkt verkefni í Vilnius. Eystrasaltsríkin eru mjög mikilvægur og vaxandi hluti í starfsemi Actavis."

Actavis mun styrkja rannsóknir og forvarnaátak á vegum verkefnisins í fimm borgum; Vilnius, Belgrad, Sofíu, Istanbúl og St. Pétursborg og leggur einnig fjármuni til rannsóknaþáttarins á Íslandi.