*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 5. maí 2020 10:14

Aðgerðaráætlanir kosti 100 milljarða

Ekki villandi framsetning þó talað sé um aðgerðir upp á 350 milljarða að mati aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins.

Ritstjórn
Ingólfur Bender er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Aðsend mynd

Samtök Iðnaðarins meta kostnað við aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar á íslenskt efnahagslíf á tæplega 100 milljarða króna að því er Fréttablaðið greinir frá, eða 3,6% af VLF. Ingólfur Bender aðalhagfræðingur samtakanna tekur þó fram að framsetning stjórnvalda um 350 milljarða króna umfang aðgerðanna hafi ekki verið villandi.

„Eitt er umfang og annað er raunverulegur kostnaður. Það var enginn feluleikur með það að stór hluti aðgerðanna fólst í að fresta skattgreiðslum, flýta framkvæmdum og auka útlánagetu bankanna. Þessar tölur eru metnar inn í heildarupphæð aðgerðapakkans,“ segir Ingólfur.

„Það segir þó aðeins hluta sögunnar því halli ríkissjóðs er að aukast mjög mikið. Fjárlög ríkisins fyrir árið 2020 gerðu ráð fyrir tæplega 10 milljarða króna halla en nú er áætlað að hann verði á bilinu 250 til 300 milljarðar.“

Ingólfur segir alvarlegasta vandann mikla aukning atvinnuleysis og því þurfi stjórnvöld að grípa hratt inn í, lækka bæði tryggingagjald og fasteignagjöld og setja aukið fé í skólana sem munu þurfa að taka við auknum fjölda í haust.

Jafnframt nefnir hann að efna þurfi hratt loforð um veitingu ríkistryggðu lánanna, en tafir hafa orðið á veitingu þeirra frá því tilkynnt var um þau 21. mars.

„Það er ekki nóg að lofa ríkistryggðum lánum á lágum vöxtum heldur þarf að veita slík lán.“