Þýski sportvöruframleiðandinn Adidas stefnir nú að því opinberlega að auka tekjur sínar um 17 milljarða evra árið 2015 en ef það tekst verður Adidas orðið stærra en helsti keppinauturinn, hið bandaríska fyrirtæki Nike.

Herbert Hainer, forstjóri Adidas sagði í samtali við fjölmiðla í morgun að félagið hygðist auka enn frekar markaðshlutfall sitt í heiminum og sigra alla stærstu samkeppnisaðilanna þannig að ekki vantar markmiðin á þeim bænum.

Adidas tilkynnti í síðustu viku um góðan hagnað á þriðja ársfjórðungi þessa árs en áætlanir þessa árs gera ráð fyrir 8% söluaukningu á milli ára. Mest hefur salan aukist í Bandaríkjunum og A-Evrópu.

Adidas hefur um árabil verið númer tvö yfir söluhæstu íþróttavöruframleiðendur heims, ávallt á eftir Nike. Í kynningu félagsins í morgun kom fram að gert sé ráð fyrir því að N-Ameríka, Rómanska Ameríka, Rússland, Kína, Japan og Indland sé meðal þeirra ríkja og svæða sem félagið gerir ráð fyrir mikilli söluaukningu næstu ár.