Á undanförnum árum hefur verið mikið um afskráningar sjávarútvegsfyrirtækja úr kauphöllinni. Árið 2002 voru 16 sjávarútvegsfyrirtæki skráð í kauphöllinni og nam kvótaeign þeirra um 46% af heildaraflamarki í þorskígildistonnum. Eftir afskráningu Samherja verða aðeins 3 fyrirtæki skráð og samkvæmt lauslegu mati Greiningardeildar Landsbankans ráða þau yfir rúmlega 19% af heildarkvótanum.

"Þau fyrirtæki sem enn eru skráð eru HB Grandi, Vinnslustöðin og Þormóður rammi-Sæberg, en eignarhald fyrirtækjanna er þröngt og viðskipti með bréf þeirra eru strjál og því etv. bara tímaspursmál hvenær þau verða afskráð. Hið þrönga eignarhald birtist í því að 10 stærstu hluthafar í fyrirtækjunum eiga um 80% af heildarhlutafé félaganna," segir í Vegvísinum.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.