Nýlega hófst sala á orkustykkjunum Jungle Bar. Stykkin innihalda meðal annars krybbur (e. crickets) en þetta er í fyrsta sinn sem matvara sem inniheldur skordýr (af ásettu ráði) er fáanleg í verslunum á Íslandi. Vöruna er hægt að kaupa í verlsunum Hagkaups. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu Crowbar Protein sem stendur að baki verkefninu.

Fyrirtækið var stofnað af þeim Búa Aðalsteinssyni, Stefáni Atla Thoroddsen og Frosta Gnarr árið 2014. Varan sem nú er fáanleg var fjármögnuð á hópfjármögnunarvefnum Kickstarter vorið 2015 þar sem um 10.000 stykki seldust á einum mánuði.

„Skordýr eru einstaklega umhverfisvæn í framleiðslu og þurfa einungis snefil af því vatni, fóðri og landi sem önnur dýraræktun krefst,“ er haft eftir Búa í fréttatilkynningunni. „En auk þess eru þau einstaklega næringarrík, bragðgóð og henta vel í þær vörur sem við erum að þróa.“

Verkefnið hefur hlotið styrki frá Tækniþróunarsjóði, Hönnunarsjóði, Nýsköpunarmiðstöð Íslands auk þess sem verkefnið fór í gegnum viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík á vegum Icelandic Startups.