Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur löngum vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í stjórnmálum enda þekkt fyrir að tala tæpitungulaust um þau mál sem fyrir henni liggja. Sem ráðherra hefur hún sett loftlags- og umhverfismál á oddinn og ekki farið leynt með þá skoðun sína að hún telji stóriðju ekki samrýmast stefnu Bjartrar framtíðar um umhverfisvernd og fjölbreytt atvinnulíf. Hún segir fyrri ríkisstjórnir hafa gengið of langt í ívilnunum sínum til stóriðjufyrirtækja og segir komið að reikningsskilum í umhverfismálum.

Björt segist ánægð með fyrstu mánuðina í starfi og segist ganga vel að koma sér inn í verkefni ráðuneytisins. „Auðvitað er manni hent út í eitthvað sem er á margan hátt ókunnugt og ég er að gera þetta í fyrsta skipti á meðan ýmsir aðrir í ríkisstjórninni hafa verið ráðherrar í tví- og þrígang áður. Það er vitanlega mikið sem maður þarf að setja sig inn í og þar að auki á ég lítil börn og því nóg að gera. Það sem hefur reynst mér best til að takast á við álagið er einfaldlega að fara snemma að sofa. Þar að auki eru auðvitað ákveðnir eðlislægir eiginleikar sem ég held að hafi hjálpað mér mikið á þessum fyrstu mánuðum í nýju starfi eins og t.d. að fara ekki í kerfi yfir því að það sé mikið að gera, ná að anda í kviðinn og hugsa um eitt í einu. Við svona aðstæður er ágætt að hafa reynt ýmislegt í lífinu og að það hafi einhvern tímann reynt á þolmörkin hjá manni. Þá veistu hvað þú getur og hvernig þú bregst við þessum aðstæðum.“

Yrði ekkert hræðilegt að gera eitthvað annað

„Já, ég held að það sé kostur í mínu tilfelli og í tilfelli okkar í Bjartri framtíð hve ungur flokkurinn er enda tel ég að það gefi okkur mun meira rými til að fylgja sannfæringu okkar. Ég gæti trúað því að þegar þú ert partur af stærri flokki þá þurfir þú oftar að gera málamiðlanir og taka tillit til og beygja þig undir hagsmuni eða skoðanir sem þú myndir ekki annars gera.

Ég tel að það sé kostur að ég hafi ekki endilega ætlað mér í pólitík frá unga aldri. Það er til mynda auðvelt fyrir mig að setja fram mína sýn og hugsanir um ýmislegt án þess að ég þurfi mikið að vera að pæla í því hvort að það muni skemma fyrir mér einhvern mögulegan framtíðarstjórnmálaferil. Það sem ég á við með þessu er að mig langar að gera mjög marga hluti. Það er mjög gaman að vera í stjórnmálum og mjög gaman að vera ráðherra og það er sérstaklega frábært fyrir manneskju eins og mig sem vill koma hlutum í verk. En það yrði hinsvegar ekkert hræðilegt fyrir mig prívat og persónulega ef ég færi svo að gera eitthvað annað seinna. Bara alls ekki. Ég lít svo á að ég sé með mjög stórt verkefni fyrir framan mig um þessar mundir, þ.e. loftlagsvandann, þar sem allt Ísland er undir og þar á meðal náttúran okkar, hafið og loftgæði og við þurfum að passa upp á sjálfbærnina til framtíðar. Ég hef einstakt tækifæri til að gera það á þessum fjórum árum og ég ætla að nýta þann tíma mjög vel.“

Viðtalið við Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.