*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 6. júní 2021 12:02

Ætla ekki að fylgja áliti umboðsmanns

Fjármálaráðuneytið er ósammála niðurstöðu umboðsmanns í máli forstöðumanns og ætlar ekki að fylgja því.

Jóhann Óli Eiðsson
Þórður Arnar Þórðarson

Formaður Félags forstöðumanna ríkisins (FFR) segir að þó margt hafi batnað í starfsumhverfi þeirra þá standi launaliðurinn eftir enda hafi hann ekki fylgt samanburðarhópum. Fyrir liggi svar fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að það ætli ekki að fylgja áliti umboðsmanns Alþingis frá því fyrr á þessu ári.

„Það var mikil óánægja með að vera undir kjararáði enda voru allar launaákvarðanir þar mjög hipsumhaps og ógegnsæjar. Því til viðbótar var viðskilnaður ráðsins við þennan hóp ekki góður, umsóknir voru afgreiddar seint og illa auk þess að fjöldi bréfa lenti milli skips og bryggju hjá þeim þegar ráðið var lagt niður,“ segir Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og nýkjörinn formaður FFR. Líkt og fjallað hefur verið um á síðum þessa blaðs hefur einn forstöðumaður stefnt ríkinu til viðurkenningar á bótaskyldu vegna meðferðar ráðsins á erindi sínu.

Kristján segir að félagið hafi unnið með KMR við að koma nýju launakerfi á árið 2019 og ljóst sé að það sé að mörgu leyti betra. Samkvæmt því var störfum forstöðumanna skipað í launaflokka samkvæmt grunnmati en það mat byggði meðal annars á ábyrgð og umfangi starfs þeirra. Hins vegar hafi ekki verið lagt í þá vinnu að rétta hlut þeirra sem ráðið virti ekki viðlits og sátu eftir í kjörum af þeim sökum.

„Nýja kerfið er ágætt svo langt sem það nær og stefnir í rétta átt en enn sem komið er það ekki nægilega gagnsætt. Ráðuneytin hafa samkvæmt því full mikið vald, án þess að við eigum nokkurn andmælarétt, um launasetninguna,“ segir Kristján. Hann tekur þó fram að forstöðumenn eigi í góðum samskiptum við KMR varðandi mannauðsmál og að nú séu hafin endurmats- og starfsviðtöl sem þekktust ekki áður. Launaþátturinn standi samt enn eftir.

Hærra hlutfall auglýst

Starfskjör skrifstofustjóra eru almennt háð kjarasamningum stéttarfélags og eru nú kringum 1,5 milljónir króna á mánuði. Um tveir af hverjum þremur forstöðumönnum eru á lægri launum en það. Kristján bendir á að skrifstofurnar séu misstórar hvað mannafla varðar og þá er óalgengt að þeir þurfi að koma fram opinberlega fyrir hönd ráðuneyta og svara fyrir verk sem unnin eru innan þeirra.

Könnun Talnakönnunar leiddi enn fremur í ljós að á síðastliðnum fimm árum hefðu störf hópanna þriggja verið auglýst. Í tvígang var staða ráðuneytisstjóra auglýst, skrifstofustjóra tólf sinnum en forstöðumanns í 46 tilvikum. Hópur forstöðumanna er vissulega fjölmennari en sé litið til hlutfalls auglýsinga af fjölda af stöðum sýna niðurstöður Talnakönnunar að um fimmtungur staða ráðuneytis- og skrifstofustjóra hefur verið auglýstur en um 36% af stöðum forstöðumanna. Niðurstaða könnunarinnar er að starfsöryggi sé minna hjá félagsmönnum FFR.

Fyrir tæpu hálfu ári birti umboðsmaður Alþingis álit þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um laun forstöðumanns væri stjórnvaldsákvörðun, þannig að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins giltu um hana fullum fetum, en ekki stjórnvaldsfyrirmæli líkt og FJR og KMR höfðu byggt á. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að rétta hlut þeirra sem til hans leituðu. Kristján segir að nú liggi fyrir afstaða ráðuneytisins þar sem fram kemur að það sé ósammála niðurstöðu umboðsmanns og að unnið sé að aðgerðum, sennilega lagabreytingu, til að breyta málum. „Þetta olli félagsmönnum mikilli furðu að menn ætli ekki að taka mark á áliti umboðsmanns og standa fast á því að þetta séu stjórnvaldsfyrirmæli. Menn hafa ekki enn bitið úr nálinni með það,“ segir Kristján.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.