Apple skilaði 34,6 milljarða dala hagnaði á fjórða ársfjórðungi 2021, sem er um 20% aukning frá fyrra ári. Afkoma netrisans var um 10% yfir væntingum greiningaraðila sem höfðu að meðaltali spáð 31,1 milljarðs dala hagnaði. Hlutabréfaverð Apple hefur hækkað um 3,7% í viðskiptum fyrir opnun hlutabréfamarkaða vestanhafs. Financial Times greinir frá.

Tekjur Apple á fjórða ársfjórðungi jukust um 11% á milli ára og námu 123,9 milljörðum dala. Greiningaraðilar gerðu ráð fyrir að tekjur netrisans yrðu um 119 milljarðar dala. Tekjur af sölu á iPhone vógu um 58% af heildartekjum Apple. Sala á iPone jókst um 9 á milli ára og nam 71,6 milljörðum dala.

Sjá einnig: Apple aftur orðið stærst í Kína

Luca Maestri, fjármálastjóri Apple, sagði þó að raskanir á aðfangakeðjum hefðu kostað fyrirtækið meira en 6 milljarða dala í tekjur á fjórðungnum. Fjárfestar áttu von á að þessi fjárhæð yrði nær 10 milljörðum dala vegna fyrri tilkynninga Apple.