Afkoma hvalaskoðunarfélaga var töluvert verri í fyrra heldur en árið þar á undan. Kostnaðarhækkanir og hátt gengi krónunnar settu mark sitt á afkomuna. Fréttablaðið greinir frá þessu .

Árið 2016 var samanlögð afkoma félaganna jákvæð um 338 milljónir króna en árið 2017 var hún hins vegar neikvæð um 222 milljónir. Heildartekjur námu rúmum þremur milljörðum króna og stóðu í stað á milli ára.

Rekstrargjöld jukust um 16% og þar af jukust launagjöld um 26%. Þrjú stærstu hvalaskoðunarfyrirtækin standa undir lang stærstum hluta tekna í greininni í heild, eða um 2,1 milljarði af þremur milljörðum. Elding var það eina af þessum þremur félögum sem skilaði hagnaði en hann nam aðeins 1% af tekjum.